Súkkulaðibitamuffins
Mig hefur lengi langað til að finna þessa gömlu góðu muffinsuppskrift, með súkkulaðibitum og kaffijógúrt. Eins og bollakökur geta verið fallegar og fínar fyrir ýmis kaffiboð og veislur, þá finnst mér súkkulaðibitamuffins alltaf klassískt og heimilislegt. Það var svo í fyrrahaust sem mér var boðið upp á muffins og þá vildi svo heppilega til að þetta var uppskriftin sem mig langaði svo lengi í. Þessi uppskrift kemur frá Sunnu samstarfskonu minni og hefur hún slegið í gegn á heimilinu.
Súkkulaðibitamuffins – uppskrift:
220 gr smjör
2 bollar sykur
3 egg
2,5 bolli hveiti
0,5 tsk natron
Pínu salt
1 dós kaffijógúrt
150 gr súkkulaðibitar
0,5 tsk vanilludropar
Byrjið að hræra egg og sykur létt saman. Hafið smjörið við stofuhita og skerið niður í minni bita áður en því er bætt út í. Bætið við hveiti og kaffijógúrti samhliða ofan í og hrærið hægt á meðan. Því næst er natrin, salt og vanilludropum bætt út í deigið. Skerið súkkulaðið í litla bita og bætið því síðast við deigið. Setjið í form.
Bakað á blæstri við 180°C í sirka 12-16 mínútur, fer eftir stærð á formum. Best er að stinga beittum hníf í muffinsið til þess að vita hvort að það sé bakað í gegn.