Bakstur Konfekt Uppskriftir

Fylltir konfektmolar

Ég gerði ýmsar tegundir af konfekti um helgina og ætla ég að deila með ykkur hugmyndum um það hvernig er hægt að gera fyllta mola með þremur mismunandi aðferðum. Það er síðan hægt að setja aðrar bragðtegundir en þær sem ég tel upp hér að neðan.

Það sem þarf er plastmót, sem fæst til dæmis í Allt í köku og góða kæliaðstöðu, ísskáp eða pláss úti til þess að geyma konfektið ef að það er við frostmark.

 

IMG_9177

 

Temprun á súkkulaði

Temprun á súkkulaði felst í því að bræða það hægt yfir vatnsbaði til þess að það haldi gljáa og mýkt. Þá er gott að setja glerskál yfir pott og hafa vatn í pottinum sem nær ekki alveg upp að glerskálinni. Ná upp hita á vatninu, en ekki láta vatnið sjóða. Saxið súkkulaðið niður í litla bita og látið 2/3 af súkkulaðinu í skálina. Byrjið að hræra þegar súkkulaðið byrjar að bráðna. Þegar súkkulaðið er alveg bráðið þá er restinni af súkkulaðinu sett út í og hrært þangað til allt súkkulaðið er bráðið. Haldið hita á vatninu á meðan þið vinnið með súkkulaðið.

 

Bananamolar

Uppáhalds molarnir mínir eftir þessa konfekt gerð eru bananamolarnir. Stökkir molar með meðalmjúkri bananasúkkulaðifyllingu.

Hér eru sirka hlutföllin í uppskriftinni. Hins vegar fer þetta algjörlega eftir því hversu stórir molarnir eru og hversu mikið af Siríus konsum súkkulaði er sett á móti bananafyllingunni.

  • 200 gr Siríus konsum súkkulaði
  • 100 gr Bananapipp súkkulaði
  • 5 msk rjómi

Temprið súkkulaðið og hellið því í formin. Hellið aftur úr þeim og skafið af spjaldinu svo að ekkert umfram súkkulaði er ofan á spjaldinu. Passið að hella ekki of miklu úr spjaldinu heldur. Kælið þangað til að súkkulaðið er orðið stökkt.

Temprið bananapippið og blandið við umþ 4-5 msk af rjóma við hver 100gr af bananasúkkulaði. Hrærið þangað til að blandan er orðin silkimjúk.

Setjið bananasúkkulaðið í formin en passið að setja ekki of mikið, það þarf að vera gott pláss fyrir súkkulaði ofan á blönduna. Ekki ert hægt að fylla upp í með bananasúkkulaðinu því það verður ekki jafn stökkt og konsum súkkulaðið. Setjið konsum súkkulaðið í formin og fyllið upp í molana. Skafið af umfram súkkulaði. Ath. að skafa ekki ofan í sama súkkulaðipott ef að þið ætlið að búa til aðra bragðtegund úr sama súkkulaði. Bananabragðið á það til að smitast yfir og súkkulaðið getur einnig misst tremprunina og gljáann ef of mikið af öðrum matvælum blandast við það.

Kælið þangað til molinn er orðinn vel harður. Betra að geyma lengur ef þið eruð ekki viss um hvort hann sé tilbúinn.

Takið molana úr og setjið í box. Mér finnst betra að setja bökunarpappír á milli hæða í formum til þess að blanda molunum ekki saman. Geymist í kæli.

Einnig væri hægt að nota hvítt súkkulaði ofan á molana til þess að fá blönduna af hvítu og dökku súkkulaði. Sjá aðferð á trönuberjamolunum.

 

Piparmyntumolar

Hef engin hlutföll hér, þar sem að þið bræðið bara eins mikið súkkulaði og þið viljið og piparmyntublandan fer einnig eftir því hversu mikið þið setjið í molana.

  • Siríus konsum súkkulaði
  • Piparmyntudropar
  • Flórsykur
  • Nokkrir dropar af vatni

Temprið súkkulaðið og hellið því í formin. Hellið aftur úr þeim og skafið af spjaldinu svo að ekkert umfram súkkulaði er ofan á spjaldinu. Passið að hella ekki of miklu úr spjaldinu heldur. Kælið þangað til að súkkulaðið er orðið stökkt.

Hrærið saman smá flórsykri og nokkrum dropum af vatni þangað til að blandan er orðin mjúk, en þó frekar þykk. Bætið við flórsykri ef blandan er of þunn. Síðan er bætt við piparmyntu dropum eftir smekk.

Setjið piparmyntublönduna í formin en passið að setja ekki of mikið, það þarf að vera gott pláss fyrir súkkulaði ofan á blönduna. Setjið síðan súkkulaðið í formin og fyllið upp í molana. Skafið af umfram súkkulaði. Ath. að skafa ekki ofan í sama súkkulaðipott ef að þið ætlið að búa til aðra bragðtegund úr sama súkkulaði. Piparmyntu bragðið á það til að smitast yfir og súkkulaðið getur einnig misst tremprunina og gljáann ef of mikið af öðrum matvælum blandast við það.

Kælið þangað til molinn er orðinn vel harður. Betra að geyma lengur ef þið eruð ekki viss um hvort hann sé tilbúinn.

Takið molana úr og setjið í box. Mér finnst betra að setja bökunarpappír á milli hæða í formum til þess að blanda molunum ekki saman. Geymist í kæli.

 

Trönuberjamolar
  • 1 hluti hvítt súkkulaði
  • 1 hluti Siríus konsum súkkulaði
  • Þurrkuð trönuber

Temprið hvíta súkkulaðið og hellið því í formin. Hellið aftur úr þeim og skafið af spjaldinu svo að ekkert umfram súkkulaði er ofan á spjaldinu. Passið að hella ekki of miklu úr spjaldinu heldur. Kælið þangað til að hvíta súkkulaðið er orðið stökkt. Temprið Siríus konsum súkkulaðið.

Setjið trönuber í formin en passið að þau standi ekki upp úr forminu. Það gæti þurft að skera þau niður í minni bita áður. Setjið síðan Siríus konsúm súkkulaðið í formin og fyllið upp í molana. Skafið af umfram súkkulaði. Kælið þangað til molinn er orðinn vel harður. Betra að geyma lengur ef þið eruð ekki viss um hvort hann sé tilbúinn.

Takið molana úr og setjið í box. Mér finnst betra að setja bökunarpappír á milli hæða í formum til þess að blanda molunum ekki saman. Geymist í kæli.

Auðvitað er hægt að gera þessa með aðeins siríus konsum súkkulaði, en hvítasúkkulaðið passar einstaklega vel með berjum.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.