Bakstur Eftirréttir Kökur

Litla syndin ljúfa

Einn af uppáhalds eftirréttunum mínum er volg súkkulaðikaka. Mamma mín hefur gert þessa lengi og man ég ekki hvar þessi uppskrift birtist fyrst, en ég fann hana allavega fyrir einhverju síðan á netinu og hef gert hana ótaloft síðan. Kökurnar eiga að vera bakaðar í endana en volgar og blautar að innan. Mæli hiklaust með þessari uppskrift og eiginlega get ég staðfest að hún er með þeim betri.

Fyrir þá sem vilja hana ekki jafn blauta þá er hægt að baka hana lengur. Mæli með því að prófa að baka eina ef þið eruð að fara að baka mjög margar í veislu þar sem þið megið alls ekki klikka, bara til að vita bökunartímann. Hver mínúta skiptir máli og tók ég eftir miklum mun eftir að ég fékk nýjan bakaraofn – munaði 2 mínútum á eldunartímanum.

Litla syndin ljúfa – uppskrift

140 gr smjör
140 gr flórsykur
70 gr Konsúm suðusúkkulaði
70 gr 70% súkkulaði
60 gr hveiti
3 eggjarauður
2 egg

Bræðið smjör og súkkulaðið á vægum hita í potti. Slökkvið undir um leið og allt smjörið er bráðnað og hrærið í þar til allt súkkulaðið hefur bráðnað líka. Þeytið eggin og eggjarauðurnar og blandið svo flórsykrinum við. Bætið súkkulaðiblöndunni hægt saman við og hrærið á hægum hraða. Bætið hveitinu við að lokum og hrærið vel saman við.

Skiptið deiginu í 6-7 lítil form. Bakið við 220 gráður á blæstri í 9-10 mínútur, 11-12 mínútur ef þið hafið geymt deigið í ísskáp.

Borið fram með ís eða rjóma og berjum.

Kökurnar geymast vel óbakaðar í ísskáp í allavega 3 daga. Svo það er vel hægt að vera búinn að útbúa þennan eftirrétt fyrir veislu einhverju áður og skella svo bara í ofninn þegar komið er að eftirréttinum.

 Litlu formin verða mjög heit eins og gefur að skilja og verður því að bera formin fram á undirdiskum.

IMG_7446.PNG

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *