Kvöldmatur Uppskriftir

Sveppapasta með kjúkling

Þessi pastaréttur varð til fyrir 1-2 árum þegar okkur vantaði nýjan rétt til að elda og úr varð bragðmikill pastaréttur með sveppum, kúrbít og piparosti. Við gerðum gerðum þennan rétt í kvöld og var því tilvalið að skella mynd af disknum og koma uppskriftinni á síðuna.

Sveppapasta með kjúkling – uppskrift:

Tagliatelle pasta fyrir 2-3
2 kjúklingabringur
1/2 kúrbítur
2-3 hvítlauksrif
Hálft box af sveppum
1/4 villisveppaostur
1/2 piparostur
2 dl rjómi

Sjóðið pasta sér.
Skerið sveppina og ostinn í bita og setjið í pott með rjómanum og helmingnum af pressuðum hvítlauknum. Látið ostinn bráðna og fáið rjómann til að sjóða. Ef ykkur finnst blandan vera of lin þá er mögulegt að bæta örlítið af maísmjöli eða sósujafnara til að þykkja sósuna.

Skerið kjúklingabringurnar í litla bita og steikið á pönnu og kryddið með salti og pipar. Bætið restinni af pressuðum hvítlauk út á pönnuna. Skerið kúrbítinn í litla bita, til dæmis í sneiðar og síðan í 4-6 bita hver sneið. Bætið kúrbítnum út á kjúklinginn og steikið í um það bil 2 mínútur.

Blandið sveppasósunni við pastað og síðan kjúklingnum með kúrbítnum. Hrærið vel og vandlega saman þar til allt pastað er með sósu og kjúkling.

Berið fram með heitu hvítlauksbrauði.

IMG_8373

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.