Tómata- og basilikupasta
Einn uppáhalds pastarétturinn á heimilinu er Tómata- og basilikupasta. Hér er uppskrift fyrir 4. Við gerum yfirleitt alltaf of mikið fyrir okkur tvö og eigum í afganga daginn eftir. Gott bæði heitt og kalt finnst mér, og því tilvalið í nesti.
Tómata- og Basilikupasta – uppskrift:
Penne pasta fyrir 4
3-4 kjúklingabringur
4 tómatar
3-4 hvítlauksrif, eða eftir smekk
1 askja af ferskri basiliku
1 msk ólífuolía
1 mossarellaostakúla
1 dl rifinn Parmessanostur eða eftir smekk
Sjóðið pastað sér.
Skerið kjúklinginn í bita og steikið varlega og kryddið með salti og pipar. Bætið hvítlauknum við kjúklinginn. Saxið basilikuna niður og setjið í matvinnsluvél, notið töfrasprota eða mortel. Bætið við olíu og þá verður þetta að hálfgerðu basilikupestói.
Skerið mossarellaostinn í litla bita og tómatana líka.
Setjið pastað í stóra skál og blandið basilikupestóinu vel saman við. Því næst er ostinum og tómötunum bætt við og svo kjúklingabitunum. Hver og einn getur svo bætt við parmessanosti við sinn skammt.