Prjónað og heklað fyrir soninn
Síðustu vikur, og mánuði, hef ég ekki verið virk með að koma með nýjar færslur þar sem ég var önnum kafin í að undirbúa komu sonarins í heiminn. Ég nýtti tímann í að prjóna og hekla og svo að græja herbergið hjá litla drengnum. Róbert Ingi kom í heiminn 03.09.14 og hefur lífið snúist um að kynnast honum og hafa það kósý.
Nú mun ég smám saman setja inn fleiri færslur, bæði handavinnu, barnaherbergið þegar það verður fullklárt og mataruppskriftir. Fylgist með!
Heimferðasett
Hér eru myndir af heimferðasettinu sem rétt svo passaði á drenginn, peysan varð lítil vegna prjónastærðar, en húfan varð aðeins of lítil vegna höfuðstærðar á barninu. Hins vegar er amma búin að redda málunum og stækka húfuna núna. Þar sem ég vissi að peysan varð svona lítil þá gerði ég aðra síðustu vikurnar fyrir fæðingu sem mun taka við núna þar sem drengurinn drekkur svo vel að hann stækkar eins og hann fái borgað fyrir það.
Heimferðasettið gerði ég úr Geilsk Tweed frá Litlu prjónabúðinni. Þurfti ég 2 dokkur í allt settið og það var smá afgangur. Notaði prjóna 2,5 – 3,5. Tölurnar fást í Ömmu mús.
Peysan er uppskrift sem ég fékk frá tengdamömmu minni og heitir Óvænti barnajakkinn (Baby Surprise Jacket) og var upphaflega gefin út 1968. Peysan er prjónuð sem eitt stykki og svo saumuð saman að ofan frá ermum að öxlum. Þýðingin á uppskriftinni var ekki upp á marga fiska og mætti alveg hafa verið lesin yfir af mínu mati. En þegar maður hefur klórað sig fram úr henni einu sinni er er ekkert mál að skella í aðra peysu.
Húfan er húfuuppskrift frá Storkinum. Vettlingarnir og sokkarnir eru nokkurvegin eftir eigin höfði með venjulegum uppskriftum til viðmiðunar, upp á lykkjufjöldann að gera.
Teppi
Ég gerði einnig teppi til þess að hafa með í vagninn. Þetta er kambgarn og heklað á nál nr. 4. Engin uppskrift, en tók þó mið af teppi sem ég hafði gert áður. Er svo hrifin af þessum túrkisblá lit!
Bangsagalli
Nýja uppáhalds garnið mitt er Baby Cashmerino frá Debbie Bliss, og fæst það í Storkinum. Yndislega mjúkt garn!
Uppskriftin er úr lítilli barnafatabók sem er gefin út frá Debbie Bliss. Mér fannst uppskriftin og sniðið eitthvað undarlegt þegar ég gerði gallann og myndi ég reyna að breyta uppskriftinni ef ég væri að prjóna þennan galla aftur.
Gallinn er í stærð 0-3 mánaða og er alveg frábær til að henda stráknum í hann þegar við skreppum út í bíl.
Ég prjónaði/heklaði talsvert meira (smekki, húfur, trefil, vettlinga og peysur) á meðgöngunni sem ég á enn eftir að þvo og taka myndir af. Mun setja það inn þegar ég hef næst tíma meðan drengurinn sefur og ég verð útsofin líka. Hvenær sem það verður 🙂
Mjög flott allt saman ☺️