Keto LKL Uppskriftir

Skýjabrauð / Pizzabotn (Keto)

Uppskrift að 8-10 brauðsneiðum eða 2 litlum pizzabotnum:

4 stór egg
2 msk rjómaostur
1 tsk heitt pizzakrydd
1/2 tsk hvítlaukssalt

Forhitið ofninn á 170 gráður blástur.

Aðskiljið eggjahvíturnar frá eggjarauðum og stífþeytið eggjahvíturnar. Hrærið saman eggjarauðurnar, rjómaostinn og kryddin saman þar til blandan verður mjúk og bætið stífþeyttu eggjahvítunum varlega saman við með sleikju.

Raðið varlega í 8-10 brauðbollur með góðu millibili á bökunarplötu og hafið bökunarpappír undir. Bakið við 170 gráður á blæstri í u.þ.b. 20 mínútur. Skýjabrauðið stækkar mikið í bakstri en fellur svo aftur niður þegar það er tekið úr ofninum.

Þetta er svo hægt að nota sem samlokubrauð, setja á ýmis álegg og osta, sykurlausa sultu en mér finnst best að búa til guacamole og setja það ofan á.

Einnig er sniðugt að nota þessa sömu uppskrift og búa til pizzabotn, þá fer helmingur uppskriftar í botn fyrir einn. Athugið að þið þurfið að forbaka botninn og setja síðan áleggið á og aftur inn í ofn.

Hugmyndir að LKL pizzaáleggi : Sykurlaus pastasósa, skinka, beikon, piparostur og rifinn pizzaostur.

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.