Bakstur Kökur Uppskriftir

Súkkulaðikaka – „Brúðkaupstertan mín“

Ein af þeim uppskriftum sem ég er oftast beðin um er af súkkulaðikökunni sem ég og maðurinn minn höfðum sem brúðkaupstertu í brúðkaupinu okkar. Þetta er uppskrift sem ég fékk í saumaklúbbnum mínum og var þetta fljótt uppáhaldssúkkulaðikakan. Fyrir brúðkaupið okkar, sem var óvænt brúðkaupsveisla, bakaði ég 5 kökur, skellti í kæli og skreytti síðan með jarðaberjum, og setti mörgæsahjón ofan á í veislunni.

Súkkulaðikakan er þétt í sér og dugir að fá sér litla sneið til þess að uppfylla súkkulaðiþörfina. Yfir kökunni er síðan harður súkkulaðihjúpur.

Súkkulaðikaka – uppskrift

4 egg
2 dl. sykur
100 gr. suðusúkkulaði
100 gr. 70% súkkulaði
100 gr. smjör
1 dl. hveiti

Krem:
70 gr. smjör
150 gr. suðusúkkulaði
1-2 msk síróp

Hrærið sykur og egg saman. Bræðið súkkulaðið og smjörið í potti og hellið blöndinnu síðan varlega út í eggja- og sykurblönduna. Blandið hveitinu rólega saman við.

Smyrjið form með smjöri, eða klæðið smelluform að innan með bökunarpappír (þá verður kakan skemmtilega ójöfn á köntum). Setjið deigið í formið og bakið við 170 gráður í 35-40 mínútur.

Kælið kökuna örlítið áður en þið hellið kreminu ofan á. Best er að geyma kökuna í kæli. Berið fram með jarðaberjum og þeyttum rjóma.

IMG_0186

Einnig er hægt að bræða Góu-kúlur og 1 dl rjóma við vægan hita og hella yfir kökuna sem krem til þess að fá blauta karamellu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *