Bakstur Konfekt Uppskriftir

Oreó trufflur

Það sem þarf í trufflurnar er:

  • 48 Oreó kexkökur (ca. 530gr eða þrír kassar með 16 stk.)
  • 230 gr rjómaostur
  • 300 gr Siríus konsum súkkulaði
  • 200 gr hvítt súkkulaði

Byrjið á því að mylja kexið niður með morteli eða í plastpoka og rúllið yfir með kökukefli. Setjið í hrærivélarskál og blandið rjómaostinum saman við og hrærið þangað til hann er vel blandaður saman við kexið.

Kælið í ísskáp í lágmark 2 klukkustundir.

Búið til kúlur úr deiginu og raðið á bökunarpappír. Um það bil 1 teskeið í kúlu. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði. Passið að vatnið sjóði ekki sem er undir, þá missir súkkulaðið glansinn. Best er að skera súkkulaðið niður í litla bita og bræða alveg 2/3, og bæta síðan restinni af súkkulaðinu ofan í og hræra með skeið þangað til súkkulaðið er orðið bráðið.

Síðan er gott að vera með konfektgaffal til þess að dýfa kúlunum ofan í súkkulaðið. Til dæmis er hægt að fá svona í Kokku og hann kostar 890kr.
konfektgaffall

Trufflunum er síðan raðað á aðra bökunarplötu með bökunarpappír og beðið er eftir að súkkulaðið harni örlítið. Þá er tími til þess að bræða hvíta súkkulaðið yfir vatnsbaði, setja það síðan í sprautupoka með litlu gati, eða í upprúlluðum bökunarpappír. Hvíta súkkulaðinu er síðan dreift yfir trufflurnar eins og hver vill.

Bökunarplatan er síðan sett út, ef það er við frostmark, annars í ískáp, þangað til að súkkulaðið er allt orðið stökkt.

Geymist í kæli eða í frysti.

 

IMG_9164

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *